144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég hef áhyggjur af þessu og ég tek heils hugar undir það að mér finnst vera flausturslega unnið. Líkt og hv. þingmaður kom inn á er hér ekki aðeins verið að velta kostnaðinum yfir á sjúklinga heldur einnig verið að auka kostnað ríkisins.

Og ef ég kem aftur að því sem ég var byrjuð að segja áðan þá hef ég áhyggjur af því að fleiri sjónarmið en eingöngu læknisfræðileg verði notuð þegar ávísa á lyfjum. Þú getur haft tvö lyf sem hægt er að gefa við sama sjúkdómnum eða kvillanum, annað er tekið inni á heilbrigðisstofnun en hitt utan hennar. Þá þarf sá sem tekur lyfið með sér heim að borga en sá sem fær lyfið inni á spítalanum ekki.

Ég held að hér sé stór hætta á því að bæði sjúklingar og jafnvel líka (Forseti hringir.) heilbrigðisstarfsmenn fari að líta á kostnaðinn, sem lendir á fólki, sem nú þegar (Forseti hringir.) er í þeirri stöðu að hafa oft ekki efni á því að leysa lyfin sín út.