144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að sjá nýja þingmenn læra svo hratt. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hefur nú einungis setið hér sem þingmaður þetta haust og hefur nú þegar tekið upp „slógan“ Samfylkingarinnar sem svör við öllum spurningum: Hér varð hrun. Það er gott að þingmenn læri hratt og vel.

Ég vil árétta það sem fram kom í máli mínu um fundarstjórn forseta áðan, að haustið 2012 voru lengstu umræður um fjárlög sem verið hafa frá því að mælingar hófust og svo er umræðan núna komin í 2. sætið, þá er ég að tala um tímalengd umræðunnar. Árið 2012 var í uppsiglingu mikið kosningaloforðafrumvarp sem var að meginstefnu til algjörlega ófjármagnað og það bentum við á. Það varð engin almennileg innspýting í heilbrigðiskerfið í tíð (Forseti hringir.) síðustu ríkisstjórnar í lok starfstíma hennar og (Forseti hringir.) það fyrsta sem ný ríkisstjórn gerði var að skera burtu allan óþarfann og ósómann.