144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Þingmaðurinn nefndi aukna greiðsluþátttöku sjúklinga og mér fannst hann komast vel að orði þegar hann sagði að það væri ekki neinum einum um að kenna heldur okkur öllum að við hefðum látið kerfið þróast þannig að greiðsluþátttakan hér væri nú orðin um 20%. Hann nefndi þá tölu, en mér fannst ég hafa heyrt hærri tölu um daginn, alla vega er hún ekki lægri en 20%, sem er mjög mikið og mikið í samanburði við þau lönd sem við miðum okkur við. Nú á að hækka þessar álögur um 1,9 milljarða á næsta ári þannig að ekki er verið að draga neitt úr þessu.

Mig langar að spyrja þingmanninn nánar um þessa þróun, við sjáum hana náttúrlega í heilbrigðismálum, en mér finnst hún vera að gerast á fleiri stöðum og ég óttast það. Til dæmis hinn frægi náttúrupassi, við eigum að fara að borga 1.500 kr., öll sem erum orðin 18 ára til að geta farið á Þingvelli í berjamó. Það er í skólanum, það er verið að vísa þeim eru 25 ára og eldri í skóla þar sem önnin kostar 225 þús. kr. ef þeir vilja halda áfram. Ég óttast svolítið að þetta sé þróunin, og ef maður rýnir betur í fjárlagafrumvarpið þá erum við að færa okkur núna meira í þessa átt. Það er eins og hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir kallaði það í sjónvarpinu í kvöld: Þeir borga sem njóta.(Forseti hringir.) Ég er nú ekki mjög hrifin af heilbrigðiskerfinu þannig að ég njóti þess, auðvitað nýtur maður þjónustunnar (Forseti hringir.) en ekki á þann hátt sem ég held að hún meini.