144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mín tilfinning er nákvæmlega hin sama og lá í orðum hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, að skattkerfisbreytingar sem horfa til hækkunar skila sér strax út í verðlagið neytendum í óhag. Og hið gagnstæða er uppi varðandi lækkanir, þær skila sér í verðlaginu neytendum í óhag. Það er alltaf svoleiðis. Eins er það með breytingar á gjaldmiðlinum. Þegar krónan hefur fallið eða verð hennar hefur breyst þá hafa breytingar sem ættu að vera neytendum til hagsbóta ekki skilað sér í verslunum.

Ég held að þetta væri mjög verðugt rannsóknarefni að leggjast yfir. Það hefur reyndar stundum verið reynt að skoða þetta. Ég held að reynslan sé sú sem ég og hv. þingmaður deilum, að þetta sé á þennan veg. En það væri fróðlegt að láta gera ítarlega úttekt á þessu.