144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta ágæta andsvar þótt það hafi nú kannski ekki að öllu leyti eða réttara sagt að minnstu leyti fjallað um þá spurningu sem ég bar upp við þingmanninn. Ég ætla að útskýra kannski eitt atriði fyrir þingmönnum sem eru hér í húsi varðandi bætur, t.d. var tekið upp eftir kosningarnar 2006 svokallað barnaafsláttarkort hjá Reykjavíkurborg upp á 40 þús. kr. sem borgin átti að borga með hverju barni. Hvað gerðist? Jú, allar tómstundir hækkuðu nákvæmlega um það sem nam þessu frístundakorti. Það er þetta sem er svo hættulegt við bótakerfi þegar þau í raun virka ekki og peningarnir skila sér ekki til þeirra sem stjórnvöld vilja að þeir skili sé til. Það er það versta.

En auðvitað deilum við hv. þingmaður þeirri skoðun að koma upp öflugum félagslegum leigumarkaði. Það er á stefnu núverandi ríkisstjórnar og það þarf náttúrlega að vera samheldið átak allra stjórnmálaflokka að koma þeim málum í lag.

Mig langar að lokum að spyrja þingmanninn: Hvað telur þingmaðurinn að fari nú þegar (Forseti hringir.) mikið fjármagn frá ríkinu inn í Íbúðalánasjóð? Það hefði verið hægt að kaupa upp heilan (Forseti hringir.) leigumarkað í mörgum sveitarfélögum með því.