144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur allt of mikið fé verið látið fara inn í Íbúðalánasjóð einfaldlega vegna þess að menn hafa verið að streitast við að láta hann fara að ýtrustu reglum Evrópusambandsins og EFTA um eiginfjárhlutfall sem hefur verið eins og hvert annað rugl í húsnæðiskerfi sem er á vegum hins opinbera. En ástæðan fyrir því að Íbúðalánasjóður hefur átt við vandræði að stríða er einmitt sú sama og hefur hent ýmsar aðrar stofnanir í þessu samfélagi, það varð hrun. Það er ástæðan fyrir því, ekki Íbúðalánasjóður sem slíkur. Það hefur verið reynt að sverta hann og grafa undan honum alveg nógu mikið.

En um þá grundvallarspurningu sem hv. þingmaður bar fram um víxlverkun á milli hækkunar á húsaleigubótum og vaxtabótum annars vegar og hækkun á húsnæðisverði og húsaleigu hins vegar, þá er það alveg rétt. En þetta gæti átt við um aðra þætti líka, t.d. launahækkanir. Þegar launin hækka og kaupgetan eykst þá vilja menn hækka verð á (Forseti hringir.) vöru sinni. Þá kemur (Forseti hringir.) að því í samfélaginu að rjúfa það vélgengi. (Forseti hringir.) Það er sameiginlegt samfélagsátak sem snertir okkur öll.