144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er margt sem mig hefði langað að nefna um ræðu hv. þingmanns, kannski ekki síst um náttúrupassann eða reisupassann sem við getum tekist á um og fjallað betur um síðar. Það sem hv. þingmaður sagði í sínu svari kveikti í mér með það að velsældina þurfi að tryggja þannig að allir hafi það gott heima hjá sér.

Þá kemur að öðrum þætti sem hefur því miður sorglega lítið verið ræddur í þessu fjárlagafrumvarpi sem eru framlög til þróunarsamvinnu. Ég hef bent á það hér í umræðum um málið að Bretar, sem líka hafa gengið í gegnum kreppu og sem sitja fyrir neðan Íslendinga á lífskjaralista OECD, nýjum lífskjaralista, þar sem Bretar skipa 12. sætið og Íslendingar það 11., þeir samþykktu í fyrra að fara með framlög sín til þróunarsamvinnu upp í 0,7% sem er markmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fram sem hlutfall af vergum þjóðartekjum. Við erum enn í okkar 0,22% og ríkisstjórnin gengur þar fram hjá samþykktri ályktun Alþingis, samþykktri aðgerðaáætlun í þróunarsamvinnu — hún var samþykkt með öllum atkvæðum nema einu á síðasta kjörtímabili, sem er náttúrlega stærra mál og það er hvernig ríkisstjórnin fer hér með samþykktir þingsins.

Ég átti orðastað við hv. þm. Pétur Blöndal fyrr í dag um þessi mál. Hann sagði að það væri mjög mikilvægt að þegar ástandið væri orðið nógu gott hér tækjum við okkur á. Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt að við þurfum að gera þetta hægt og miklu hægar en aðgerðaáætlunin sagði til um. Ég segi: Hvenær er ástandið orðið nógu gott hjá okkur sjálfum til þess að við getum hjálpað öðrum? Þetta finnst mér ansi stór pólitísk og siðferðisleg spurning sem við sem hv. þingmenn hljótum að þurfa að svara. Því ég hef nú þá trú að við getum ansi lengi reynt að bæta ástandið hér heima ef við ætlum að bíða eftir því að tímapunkturinn komi að við verðum aflögufær. Þarna þarf nú frekar (Forseti hringir.) pólitíska ákvörðun. Hana sjáum við ekki í þessum fjárlögum. Hvert eigum við að stefna í þeim efnum? Ég spyr hv. þingmann.