144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir ljómandi góða ræðu. Mér finnst umræðan sem hófst hér í andsvörum mjög athyglisverð og mikilsverð. Það er þannig að þeir sem eru fátækir eru örlátastir. Það er svolítið magnað. Mér persónulega finnst það smánarblettur á okkur að við séum bæði nísk gagnvart fátækum Íslendingum og gagnvart því þróunarsamstarfi sem Alþingi samþykkti að fylgja eftir, plani sem mér fannst ekkert allt of rausnarlegt.

Það er kannski merki um það að þegar við eigum í erfiðleikum skiljum við erfiðleika annarra. Það er einhvern veginn þannig með þessa ríkisstjórn að það er eins og maður horfi á þessi fjárlög og sjái kristallast í henni brauðmolakenninguna, sem allir hugsandi menn hljóta að vera sammála um að hefur í reynd aldrei verið neitt annað en blekking. Getur það verið rétt ályktun hjá mér að þetta fjárlagafrumvarp sé í raun birtingarform á íslensku teboði? Að við séum allt í einu að fara aftur á bak þegar við vorum að nýta okkur kreppuna til þess að temja okkur ákveðna auðmýkt og samhygð? Er það horfið? Ég á mjög erfitt með að sjá það í þessu fjárlagafrumvarpi, af því að það eru svo veigamiklir þættir skornir niður og engin forsenda til þess ef við erum að rétta úr kútnum. Ég spyr hv. 4. þm. Suðvest. um skoðun hans á þessu.