144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta hafa verið mjög athyglisverðar og upplýsandi umræður og það sem mig langaði að koma aðeins inn á í lok þeirra er að það er alveg ljóst og við vitum það öll að verðlækkanir á öllu skila sér seint og yfirleitt aldrei til almennings. Við horfum núna upp á miklar lækkanir á heimsmarkaðsverði á olíu — mætti ég biðja þingmenn að fara út úr salnum ef þeir þurfa að ræða saman? Þá gerist það enn og aftur að þær skila sér ekki út í verðlagið hér fyrr en löngu síðar. Það sem gerist í þessu fjárlagafrumvarpi er að lagt er til að lækka sum gjöld en hækka gjöld á það sem enginn getur verið án og það er matur. Ég er sannfærð um að þetta verður þannig að matvæli hækka en hinar lækkanirnar munu skila sér mjög seint og illa til almennings, ef þær gera það yfir höfuð. Nú hefur krónan t.d. verið að styrkjast en það hefur ekki skilað sér út í verðlagið. Ég geld varhuga við þessu því þetta mun koma sér mjög illa fyrir öll heimili í landinu, ekki bara sum. Ég mundi mjög gjarnan vilja að fundnar yrðu aðrar leiðir.

Þá vil ég líka beina því til fjárlaganefndar að það verða að koma einhverjir fjármunir inn á fjárlög til að minnka þá gríðarlega miklu biðlista sem nú hafa orðið til út af verkfalli lækna og það verður að taka á þeim bráða vanda sem er varðandi geðheilbrigði barna og unglinga. Það verður hreinlega að taka á því og veita einhverja fjármuni til stofnana eins og t.d. BUGL. Það er eitthvað sem við allir þingmenn ættum að geta sameinast um.

Ég vona að hv. fjárlaganefnd taki til greina einhverjar af þeim mjög svo málefnalegum tillögum sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðum til því hér á að ríkja raunverulegt þingræði, raunverulegt fulltrúaræði þar sem ekki einungis hluti hagsmuna þjóðarinnar er hafður að leiðarljósi heldur heildarhagsmunir þjóðarinnar.