144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

svar við fyrirspurn.

[15:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er mjög hugsi yfir því hvernig við hv. þingmenn eigum að rækja okkar eftirlitshlutverk eftir að svar barst frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn minni sem ég sendi inn í kjölfar þess að hafa fylgst með nokkuð ítarlegri glærukynningu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um skuldaleiðréttinguna. Ég óskaði nánari upplýsinga um ýmis þau atriði sem þar var tæpt á en þó ekki útskýrð. Ég gerði að sjálfsögðu ráð fyrir að þegar 80 milljörðum er úthlutað af almannafé liggi ítarlegir útreikningar að baki.

Ég lagði fram fyrirspurn í 15 liðum, meðal annars um aldursdreifingu og búsetu og annað slíkt, og að sjálfsögðu hefði verið hægt að svara henni með fyrirvörum um að ekki liggi útreikningar fyrir um alla. Allir hafa skilning á því. En svarið sem ég fæ frá hæstv. ráðherra er að hann ætli að svara þessu seinna, hann ætli hér að leggja fram skýrslu einhvern tímann í vor þegar endanlegar niðurstöður liggja fyrir. Sambærilegt svar sendir hann hv. þingmönnum Birni Val Gíslasyni og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.

Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð og það gerir okkur hv. þingmönnum ómögulegt að sinna eftirlitshlutverki okkar ef hæstv. ráðherrar komast upp með (Forseti hringir.) að senda svona óboðleg svör frá sér.