144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umtalsefni þá stöðu sem margt ungt fólk og ekki síður kannski fólk á miðjum aldri, sem er ekki sterkt fjárhagslega, stendur frammi fyrir í hverjum mánuði. Þetta fólk hefur oft ekki borð fyrir báru í sínum fjármálum og þarf stundum að ýta reikningum á undan sér. Það sem gerist við það er að þessir reikningar hækka í langflestum tilfellum hækka um tíu og jafnvel tugi þúsunda eftir einn til tvo mánuði.

Því miður er það svo að sveitarfélögin eru hvað grimmust í því að senda reikninga sem ekki hafa verið greiddir í innheimtu, jafnvel stuttu eftir gjalddaga. Með þessu erum við að stuðla að því að unga fólkið okkar, sem er að berjast við að ná endum saman um hver mánaðamót, lendi í vítahring sem það síðan á mjög erfitt með að komast út úr.

Það er til umhugsunar hvort þetta er rétt stefna, hvort það er eðlilegt að reikningar sem ekki eru greiddir á gjalddaga séu komnir í innheimtu til innheimtufyrirtækja kannski hálfum mánuði, í mesta lagi mánuði eftir að gjalddagi var.