144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er eitt einkenni á mannfólkinu og kannski ekki síst stjórnmálamönnum — vel þekkt fyrirbæri — að eigna sér það sem vel er gert. Ef ég fer til dæmis í kosningabaráttu og allt gengur vel hjá mér þá er það vegna þess að ég er svo frambærileg og vel til þess gerð að standa í þessu, og auðvitað þakkar maður svo þeim sem hjálpa. Ef ég fer í kosningabaráttu og allt fer á versta veg þá er tilhneigingin sú að finna sökudólga í staðinn fyrir að líta í eigin barm. Við erum svona öll að einhverju leyti.

Hrunið, sem kom okkur kannski mjög á óvart, var að sumu leyti mjög lærdómsríkt vegna þess að við neyddumst til að líta í eigin barm. Við byrjuðum á því að reyna að kenna útlendingunum um þetta og það var talað um einhverjar efnahagsóveðurslægðir sem komu hingað frá öðrum löndum en þegar upp var staðið var þetta að miklu leyti heimatilbúinn vandi.

Mér finnst þetta vera algengt í stjórnmálunum og mér finnst margir í meiri hlutanum eða sumir tala þannig að eftir að stjórnvöld tóku við hérna, ný stjórnvöld, vorið 2013 þá hafi þjóðin rétt úr sér og gangi fagnandi fram á veginn. Ríkisstjórnin kom eins og frelsandi engill, atvinnuleysi hefur minnkað, hagvöxturinn er í góðum gír og allt er á uppleið. En ég held að þetta sé ekki svona einfalt.

Síðan koma nýjar tölur frá Hagstofunni þar sem kemur í ljós að hagvöxturinn fyrstu níu mánuði ársins er minni en við gerðum ráð fyrir, og staðan er kannski ekki eins góð. Það geta verið skýringar á þessu. En þá spyr ég: Er það þá stjórnvöldum að kenna? Verða þau þá ekki að taka það á sig líka þegar illa gengur? Ég mundi mælast til þess að við hættum að tala í þessum gír og gerum okkur grein fyrir því að heilt hagkerfi — það eru ekki bara stjórnvöld sem hafa áhrif á það, það eru fjölmargir þættir. Mér finnst þetta leiðigjörn umræða hér inni þegar talað er eins og vorið 2013 hafi þjóðin risið upp og farið að horfa bjartsýn fram á veginn. Þetta er ekki svona einfalt.