144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem segja að umræðan um Ríkisútvarpið hafi verið sérstök, þá sérstaklega af hálfu fyrrverandi stjórnarherra. Ég hvet alla hlutaðeigandi sem hafa áhuga á málefnum stofnunarinnar og ríkisrekstrinum til að skoða framlögin til stofnunarinnar á undanförnum árum. Ég skoðaði þau tíu ár aftur í tímann og fannst það eðlilegt til að sjá þróunina. Því hefur ranglega verið haldið fram að tekjur af útvarpsgjaldi hafi aldrei verið sambærileg upphæð og framlög til Ríkisútvarpsins, að þar hafi alltaf hallað á Ríkisútvarpið ef þannig má að orði komast. Árið 2009 voru útgjöld skattgreiðenda 995 milljónum meiri en sem nam tekjum af útvarpsgjaldinu. Þetta geta menn séð í ríkisreikningum. Menn geta líka lesið nákvæmlega þessar upplýsingar í bréfi sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sendu stjórn útvarpsins í febrúar 2011.

Núverandi ríkisstjórn hefur lagt til að hækka framlagið um sem nemur 485 milljónum, nærri 500 milljónum, meira en var þegar ríkisstjórnin tók við. Er það margföld hækkun á við flestar aðrar stofnanir undir ríkinu, m.a. heilbrigðisstofnanir. Stjórnarandstaðan vill setja þessa upphæð upp í 1 milljarð. Ég hvet menn til að staldra við og huga að hlutverki Ríkisútvarpsins. Ég held að við séum öll sammála, a.m.k. flest, um að vilja efla íslenska menningu og styrkja íslenska tungu. En ég vil að við horfum til fleiri þátta þegar kemur að því og þá lít ég sérstaklega á kvikmyndagerð og þáttagerð þar sem sjálfstæðir aðilar hafa staðið sig feiknarlega vel. Ég tel að þegar við ræðum þessi mál, (Forseti hringir.) sem við skulum svo sannarlega gera og fara yfir framgang einstakra stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, ég hvet menn til að gera það, ættum við líka að skoða þessa þætti.