144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv forseti. Þau eru mörg, verkefnin sem liggja fyrir okkur í þinginu þessa dagana en í hádeginu var fundur í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem við fjölluðum meðal annars aðeins um lög um gjaldþrotaskipti. Okkur hefur borist fjöldinn allur af fyrirspurnum vegna laga sem við samþykktum í þinginu árið 2010, þ.e. þegar bættist inn í lögin um gjaldþrotaskipti ákvæði um fyrningarfrest. Þetta frumvarp sem síðar varð að lögum breytti 2. mgr. 165. gr. laganna þannig að inn komu tvær málsgreinar er varða fyrningarfresti. Þá var lögfest ákvæði til bráðabirgða um að lögin skyldu endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra og nú eru þau fjögur ár uppi. Þess vegna hefur okkur borist fjöldinn allur af fyrirspurnum um það hver réttarstaðan væri. Við fjölluðum um það á fundinum í hádeginu að ákvæði laganna sem komu inn í lögin um gjaldþrotaskipti árið 2010 um fyrningarfrest væru í gildi og héldu gildi sínu þrátt fyrir þetta bráðabirgðaákvæði laganna um að þau bæri að endurskoða innan fjögurra ára.

Nefndin beinir því hins vegar til innanríkisráðuneytisins að endurskoðun þessara laga fari fram líkt og kveðið er á um í bráðabirgðaákvæðinu og að allsherjar- og menntamálanefnd verði kynnt afstaða ráðuneytisins formlega. Ég taldi mikilvægt að vekja athygli á þessu hér vegna þess að í huga einhverra virðist þetta vera óljóst, en ég ítreka að það er ljóst að lögin halda gildi sínu.