144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að gera að umræðuefni verkfall lækna. Mjög margir hv. þingmenn hafa rætt það undanfarna daga.

Nú er það þannig að kröfur þeirra eru nokkuð myndarlegar, 30–40% er talað um og þetta er hátekjustétt og talað er um að launin séu jafnvel um milljón eða yfir það á mánuði.

Þeir sem þekkja til kjarasamninga vita hversu viðkvæmt er að breyta hlutföllum milli tekjuhópa. Ef hv. þingmenn sem hafa lagt áherslu á að samið verði við lækna fylgja þeirri kröfu til enda hljóta þeir að gera sér grein fyrir því að aðrar stéttir, eins og hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, svo að ég tali nú ekki lágtekjustéttirnar á spítölunum, munu gera kröfu til þess sama. Það yrði mjög óeðlilegt að hækka hæstu launin mikið án þess að lægstu launin hækkuðu neitt þannig að jafnvel hækkunin hjá læknum næmi meiru en lágtekjufólkið fær í laun á mánuði.

Það er því mjög vandasamt að taka á þessum vanda. Mér finnst hv. þingmenn sem um þetta hafa rætt, og jafnvel sagt að Alþingi eigi ekki að fara í jólaleyfi fyrr en búið er að semja, hafi ekki áttað sig á því að þetta er það sem málið snýst um. Við getum ekki hækkað eina stétt umfram aðrar einfaldlega með því að ganga að kröfum þeirra.

Nú er það þannig að læknar hafa vísað til þess að þeir hafi setið eftir. Það má vel vera að sátt náist um að þeir nái því upp og vel má vera að þeir fái launahækkun eins og aðrir upp á 2–3% eða 4%, en ég býð ekkert í samningana í janúar, við ASÍ og aðra, ef læknar fá það sem þingmenn eru að krefjast.