144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Meginstefnan í þessu fjárlagafrumvarpi er mér ekki að skapi og ekki heldur þeim sem hafa tekið þátt í skoðanakönnunum um hvernig ráðstafa eigi fjármunum þeim sem við setjum í okkar sameiginlegu sjóði. Auðvitað er þetta ekki allt alslæmt en heildarsýnin á því hvert er verið að fara með þjóðina í þessum fjárlögum hugnast okkur pírötum ekki, við munum sitja hjá og vonumst til þess að hv. fjárlaganefnd verði við þeim tillögum sem kallaðar verða til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Betur sjá augu en auga, við búum því miður í meirihlutaræði en ekki lýðræði, það er ekki verið að verða við óskum mjög stórs hluta þjóðarinnar í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er miður og ég vona að það verði brugðist við því núna milli 2. og 3. umr.