144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er þessi dagur sem gjarnan er beðið eftir, þ.e. þegar 2. umr. um fjárlög lýkur. Helstu breytingartillögur eru komnar fram. Það hefur komið fram að við erum ekki alls kostar sátt í minni hlutanum og höfum rætt það undanfarna daga hér á þingi. Tillögur okkar miða að því að sníða af helstu ágalla þess frumvarps sem liggur fyrir. Það er að mínu mati fyrst og fremst vegna þeirrar miklu umræðu sem hefur átt sér stað, sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur að einhverju leyti tekið tillit til, en það er vissulega athyglivert að hér er verið að veikja tekjustofna, það er verið að mörgu leyti að færa byrðar yfir á þá sem síður eru aflögufærir. Við getum ekki sæst á að slíkt sé gert og því vonumst við til þess að á milli 2. og 3. umr. verði, eins og hér hefur komið fram, tekið tillit til einhvers af því sem við höfum lagt til.

Ég vil eins og aðrir þakka (Forseti hringir.) starfsfólki fjárlaganefndar fyrir gott samstarf.