144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir samvinnuna í nefndinni, mér finnst hún hafa verið betri í vetur en í fyrra og ég vil þakka fyrir það. Mér finnst vinnulagið við fjárlagafrumvarpið að mörgu leyti gagnrýnisvert. Fjárlagafrumvarp er lagt fram að hausti og síðan kemur svo mikið af breytingartillögum að þær eru í raun ígildi nýs fjárlagafrumvarps.

Safnliðirnir eru allt í einu aftur komnir inn á borð fjárlaganefndar, þ.e. meiri hluta fjárlaganefndar, og það er skref aftur á bak, finnst mér. En á sama tíma horfum við á ný lög um opinber fjármál þar sem slík vinnubrögð verða úr sögunni. Mér finnst mjög merkilegt að vinna þá ekki í anda þeirra laga sem við horfum öll til og berum mikla von í brjósti að muni bæta vinnulagið. Ég vil að því leyti gagnrýna vinnulagið. Við höfum gert grein fyrir athugasemdum okkar í nefndaráliti og ræðum og munum koma hér upp af og til til að útskýra okkar mál frekar.