144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það fer lítið fyrir, í umræðum um ríkisfjármálin, stóru póstunum sem eru skuldir ríkisins, lífeyrisskuldbindingar og breytt aldurssamsetning. Það segir okkur að við þurfum að forgangsraða í þágu grunnþjónustu. Sem betur fer hefur það tekist á undanförnum tveimur árum og við sjáum stórauknar hækkanir til Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri og ýmissar heilbrigðisþjónustu, allt að því 42% hækkun eftir einstökum liðum en um 20% til spítalanna. Einnig hefur hlutfall heilbrigðismála af ríkisútgjöldum hækkað.

Það eru hins vegar hækkanir á fleiri sviðum, eitt af því sem hefur verið áberandi í tíð þessarar ríkisstjórnar og hefur verið gagnrýnt er mikil hækkun til Ríkisútvarpsins en verið er að leggja til hækkun upp á 500 millj. kr. á ári samkvæmt tillögum meiri hlutans. Það vekur sérstaka athygli, af því að í orði kveðnu talar minni hlutinn mikið um forgangsröðun í þágu grunnþjónustu, að hann talar fyrst og fremst um að hækka þennan hálfa milljarð upp í milljarð hér í umræðum og í opinberri umræðu til Ríkisútvarpsins. Er það mjög áhugavert fyrir margra hluta sakir.