144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við greiðum atkvæði um tekjuaukningu vegna herts skatteftirlits. Þarna er um tvennt að ræða. Í fyrsta lagi betra eftirlit og við leggjum til að skattrannsóknarstjóri fái aukin fjárframlög til að sinna því eftirliti. En auk þess erum við að gera okkur vonir um að þegar við fáum upplýsingar um eignir Íslendinga úr skattaskjólum, sem við hljótum að fá að vita fljótlega hvernig farið verður með, muni það skila okkur tekjum. Það er afar hóflegt að miða hér við tekjuaukningu upp á 3 milljarða kr. og ég ítreka óskir mínar og fleiri um að við fáum sem fyrst upplýsingar um það sem stendur okkur til boða um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Ég held að það muni skila okkur miklu.