144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með stjórnmálum nokkuð lengi, löngu áður en ég byrjaði í þeim, og alltaf hafa komið fram tillögur um að bætt skatteftirlit ætti að skila svo miklu meiri tekjum. Það getur enginn haldið því fram að aukið eftirlit hafi ekki verið með skattgreiðslum á undanförnum árum. Það er vinna í gangi varðandi kaup á þessum upplýsingum og það er kannski svolítið djarft að setja 3 þús. milljónir inn á þennan lið sem verið er að vinna að. Við skulum vona að bætt skatteftirlit skili betri tekjum og þá er það auðvitað mjög gott en það getur held ég enginn haldið því fram að hér sé um að ræða mjög nákvæm vísindi.

Ég spurði hv. stjórnarandstæðinga sem báru þessa tillögu fram um hana í umræðum um störf þingsins og þar var bent á að fara þyrfti betur í að skoða bótasvik og ýmislegt tengt þeim. Ég held að það sé sjálfsagt og eðlileg að við gerum það og ég treysti því að menn séu að gera slíka hluti. En að mæta hér með spádóm um 3 þús. millj. kr. tekjur út af þessu, ja, það verður hver og einn að dæma hversu raunhæft það er. Ég ætla ekki að hafa nein orð um það, virðulegi forseti.