144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvernig einhver hv. þingmaður getur komið fram og sagt að framlög til Ríkisútvarpsins hafi verið lækkuð. Ef tillögurnar ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga hækka þau um tæpar 500 milljónir miðað við það sem var í tíð síðustu ríkisstjórnar, hækka um 500 milljónir. Það er enginn niðurskurður, það er hækkun um 500 milljónir. Hér er hins vegar, frá þeim sem gagnrýna stjórnarmeirihlutann fyrir að vera með skatta á almenning, komin tillaga um að hækka nefskatt á almenning frá því sem er í frumvarpinu. Það sem hefur breyst í tíð þessarar ríkisstjórnar er að sambærileg upphæð og kemur af útvarpsgjaldinu fer í rekstur Ríkisútvarpsins og það er stór munur á því og því sem var í gangi í tíð síðustu ríkisstjórnar.