144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um hluta tekjuöflunartillagna þeirra sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram til að fjármagna breytingartillögur okkar. Það eru auknar arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum sem nema 2.184 milljónum. Það er umtalsvert svigrúm fyrir hendi til að auka arðgreiðslur úr Landsbankanum og þessi tala er engin tilviljun, þetta eru nákvæmlega tekjurnar sem urðu af sölu Borgunar án þess að um þá sölu væri samkeppni meðal væntanlegra kaupenda. Það er algjörlega ljóst að það ætti að vera Landsbankanum vandalaust að standa skil á þeirri arðgreiðslu, á þeirri fjárhæð, í ríkissjóð.