144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er mikið ánægjuefni að sjá þá breytingu sem verður milli umræðna á þessum lið. Þetta er uppfærsla miðað við spár um tekjur ríkisins á næsta ári og við sjáum eftir álagningu á lögaðila sem kom núna milli umræðna að tekjustofnarnir, þessir stóru mikilvægu tekjustofnar, taka við sér vegna batnandi atvinnustigs, vegna betri stöðu fyrirtækjanna í landinu og vegna þess að einstaklingar skila meiri skatttekjum en áður v ar áætlað.

Umræðan um veiðigjöld er síðan alveg sérstakt mál og virðist enn vera á miklum villigötum, því miður. Hún er, að því er virðist, orðin algjörlega prinsipplaus. Hún snýst ekkert um það lengur hvað er eðlilegt gjald fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind, hún snýst alltaf um það að fjármagna útgjaldatillögur minni hlutans í þinginu. Vísað er í að afkoman sé góð og að þá eigi bara að hækka veiðigjöldin. En hvar er prinsippumræðan sem við byrjuðum hér á fyrir rúmum áratug um það hvernig hægt væri að nálgast eitthvert sanngjarnt gjald? Og hvernig væri að einhver færi að stíga hér upp í pontu (Forseti hringir.) og fagna því sérstaklega að við skulum hafa atvinnugrein sem ber sérstaka skatta langt umfram allar aðrar atvinnugreinar í landinu og skilar um 8 milljörðum í þessu frumvarpi? Hvernig væri að fara að fagna því einhvern tímann?