144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég gaf merki þegar greidd voru atkvæði um fyrri lið en kem upp í þessum lið til að gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli. Á síðasta kjörtímabili var ráðist í mjög metnaðarfullt verkefni sem var undir heitinu Græna hagkerfið, þverpólitísk samstaða, mikil vinna sem skilaði 50 mjög flottum og frambærilegum tillögum. Það er til mikillar skammar hvernig hefur verið farið með það verkefni af núverandi ríkisstjórn. Hér er gerð tilraun til þess að leiðrétta það. Auðvitað er ekkert sem tengist græna hagkerfinu í þeim lið sem hér voru greidd atkvæði um fyrr og eru sögð tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa. Ef menn vildu virkilega kalla þetta réttu nafni ætti það að heita „Hæstvirtur forsætisráðherra útdeilir peningum til verkefna sem honum finnst sniðug með sms-um“. Það er bara þannig. Menn eiga að kalla hlutina það sem þeir eru og hér er mjög góð tillaga sem ég ætla að styðja og segja já við.