144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari tillögu er ekki verið að reyna að koma til móts við hallarekstur einstakra stofnana heldur mæta þeim vanda að í háskólakerfinu eru nemendur sem er ekki greitt fyrir samkvæmt samningum. Það er verið að mæta þeim vanda og það er gert með almennum hætti, en það er alveg rétt að það vill þannig til að þessi nemendahópur er, einkum og sér í lagi í þessum tveimur skólum sem hér um ræðir — það er ekki verið að senda þau skilaboð að stofnanir eigi ekki að halda fjárlög eða gæta aðhalds í rekstri heldur er verið að mæta þessum vanda sem til dæmis Háskóli Íslands hefur bent á og hv. þingmenn hafa margir hverjir bent á í sínu máli.

Hvað varðar síðan fjárframlög til háskólakerfisins á síðasta kjörtímabili og þá ákvörðun að fjölga svo mjög eins og gert var án þess að láta fjármuni fylgja vil ég benda hv. þingmönnum á að það voru til fjármunir, t.d. til að ráðast í stórfelldar breytingar á stjórnarskrá landsins sem síðan reyndust tóm vitleysa og kostuðu hundruð og aftur hundruð milljóna [Kliður í þingsal.] og skiluðu engu og hefðu betur farið til Háskóla Íslands og háskólastigsins almennt til að mæta þeirri ákvörðun að senda þessa nemendur (Forseti hringir.) inn í háskólana. (Gripið fram í: … hroki.)