144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga að þeir fjármunir sem voru til ráðstöfunar til þess að styrkja háskólastigið skiptust á grundvelli þess sem ég hef sagt hér áður að mæta þyrfti þeim mikla vanda sem við blasti vegna nemendafjölda umfram það sem greitt var fyrir en voru við nám í háskólunum. Það skýrir það hvernig þessum fjármunum er varið.

Þar með má um leið líka vera alveg ljóst að ekki er búið að leysa allan þann vanda sem blasir við háskólakerfinu okkar, hvort sem um er að ræða Listaháskólann eða aðra háskóla. Við eigum enn eftir að stíga fjölmörg skref í því að bæta stöðu háskólanna hér á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. En ég get líka skilið að þeim sem hér tala, sem báru ábyrgð á stjórnarstefnunni á síðasta kjörtímabili, finnist óþægilegt að það sé rifjað upp, en það er samt sem áður staðan og var sú að teknar voru ákvarðanir um forgangsröðun fjármuna; ákveðið var að nota fjármuni í ýmislegt annað en háskólastigið á sama tíma (Forseti hringir.) og nemendum var þar fjölgað gríðarlega. Og ég tel að þær ákvarðanir hefðu mátt vera með öðrum hætti.