144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér leggur minni hluti fjárlaganefndar til framlag til háskólastarfsemi til að efla háskólanetið. Því skyldi það vera? Það er einfaldlega vegna þess að það er einn af þeim vaxtarsprotum sem hafa verið til að reyna að tryggja að nýta sem best sameiginlegt stjórnkerfi háskólanna í landinu, skapa þannig betri möguleika fyrir smærri háskóla til að vera áfram staðsettir annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu en njóta engu að síður hagræðingar af því að vinna í samstarfi við stærstu skólana.

Það er dapurlegt ef hæstv. menntamálaráðherra getur ekki einu sinni stutt það að fá fjármagn í þetta vegna þess að þetta er eitt af því sem er hvað mikilvægast að fylgja eftir frá því sem áður var.

Ég tek undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér varðandi starfið á síðasta ári, það er verið að gera afar lítið úr því átaki sem varð til að auka menntastig íslensku þjóðarinnar. Það er eitt af því sem hverfur í þessu fjárlagafrumvarpi og fer dapurlega í höndum núverandi hæstv. menntamálaráðherra.