144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt að háskólarnir tóku á sig heilmikið högg, ef svo má að orði komast, hvað það varðar að þeir tóku til sín miklu fleiri nemendur en þeir fengu fjármagn fyrir. Það þýðir lítið að stæra sig af þeirri aðgerð og hafa síðan ekkert látið fjármagn fylgja með. Þegar sagt er að ekki hafi verið til fjármagn fara menn að líta til þeirra áherslna sem birtust hjá síðustu ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og hvert peningar og fjármunir voru látnir renna. Menn geta ekki hlaupið frá þeirri umræðu.

Það var alveg rétt og alveg skynsamlegt að háskólarnir og framhaldsskólinn tækju á móti nemendum en var það um leið skynsamlegt hvað varðar framhaldsskólastigið að skera niður um 2 milljarða á þeim tíma á meðan ráðist var í ýmis þau verkefni sem ég ætla að leyfa mér að halda fram að hafi með engum hætti verið jafn mikilvæg þjóðhagslega og til dæmis menntakerfið? Þetta verða menn að hafa í huga, jafnframt það að nú er verið að bæta við (Forseti hringir.) meira en milljarði til háskólanna til þess að stunda sína starfsemi.