144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingartillögu okkar í stjórnarandstöðunni um aukin fjárframlög til þess að gera framhaldsskólunum kleift að vera áfram opnir fyrir fólki yfir 25 ára aldri. Það er einhver dapurlegasta tillagan í þessu fjárlagafrumvarpi að ætla að meina fólki yfir 25 ára aldri aðgang að framhaldsskólunum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að fólk þarf á því að halda að fresta framhaldsnámi, vegna efnalegra aðstæðna eða einhverra annarra ástæðna. Það fólk er ekki verri borgarar en aðrir í þessu samfélagi. Það fólk á jafn mikinn rétt og aðrir á að fá framhaldsmenntun án tillits til efnahags. Þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta ekki nema 200 manns sem tekst á hverju ári að ljúka stúdentsprófi af bóknámsbrautum. Það þarf sérstakt lundarfar til að leggja sig í framkróka við það að bregða fæti fyrir þessa fáu þegar þeir loksins komast í mark fyrir eigin rammleik.