144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur mikið verið rætt um það á undanförnum árum að eitt mikilvægasta verkefni íslensks samfélags sé að auka menntunarstig og þannig auka hagsæld í íslensku þjóðfélagi. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 er áætlað að skera niður 916 nemendaígildi á framhaldsskólastiginu. Það er dregið til baka að hluta í breytingartillögum frá fjárlaganefndinni en eftir sem áður á að fækka nemendum um 800–900. Hérna birtist menntastefna fjármálaráðherra, eða er hæstv. menntamálaráðherra þátttakandi í þessu líka? Það er verið að reyna að vinna gegn þessari stefnu og bæta við fjárveitingu til að tryggja að við getum tryggt áfram aðgengi nemenda að framhaldsskólum til jafns við það sem við þurfum á að halda. Þess vegna er sett hér tillaga um 500 milljónir í viðbót, til að rétta kúrsinn, og ég trúi því ekki fyrr en á reynir (Forseti hringir.) að hæstv. menntamálaráðherra styðji það ekki.