144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:31]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hvet þingheim og þá sem fylgjast með þessari útsendingu til að skipta — kannski ekki þingheim akkúrat á þessu augnabliki en þá sem fylgjast með — aðeins yfir á ÍNN og fylgjast með útsendingunni þar. Það er þangað sem menn eru að fara með Ríkisútvarpið. Þannig verður það ef svo fer sem fram horfir, það er bara svo einfalt.

Maður veltir fyrir sér hvers lags einstaklingar það séu eiginlega sem horfa á þá blessuðu sjónvarpsstöð, með fullri virðingu fyrir skoðunum þeirra sem þar tala, og hugsa með sjálfum sér: Þetta er skemmtilegt, svona viljum við hafa það, þetta er sjónvarpsefni sem bragur er að.

Það er hæstv. ríkisstjórn sem gerir það, hún stefnir í að hafa bara talandi höfuð í Ríkisútvarpinu, ríkissjónvarpinu. [Kliður í þingsal.] Það er hörmulegt að horfa upp á þetta. Og það er staðreynd sem ríkisstjórnin getur ekki neitað, að hennar eigin menn sem hún setti í stjórnina hafa miklar áhyggjur af þessu og hafa lýst yfir miklum áhyggjum af yfirvofandi niðurskurði sem blasir við í Ríkisútvarpinu. Ég segi já.