144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það liggur nú fyrir í miðri þessari atkvæðagreiðslu að ríkisstjórnarflokkarnir trúa ekki sínum eigin fulltrúum í stjórn Ríkisútvarpsins. Í ályktun sem stjórn Ríkisútvarpsins sendi öllum alþingismönnum segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar. Stjórn Ríkisútvarpsins beinir þeirri eindregnu áskorun til Alþingis að það standi vörð um Ríkisútvarpið með því að falla frá fyrirhugaðri lækkun á útvarpsgjaldi.“

Svo mörg voru þau orð og hér hafa ríkisstjórnarflokkarnir ákveðið að skella skollaeyrum við þessari áskorun sinna eigin fulltrúa; og töluvert var nú lagt á sig til að hafa sex fulltrúa á móti þremur fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Ég spyr: Af hverju trúa ríkisstjórnarflokkarnir ekki sínum eigin fulltrúum í stjórn RÚV?