144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er lögð fram tillaga til að reyna að ná ró og sátt í kringum Ríkisútvarpið. Við eigum nýleg lög sem setja þessari stofnun ákveðið hlutverk. Við erum með nýja stjórn sem hefur skilgreint hvað er mögulegt í hagræðingu í sambandi við rekstur Ríkisútvarpsins, kemur inn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og gerir grein fyrir sínum áformum og segir: Við munum bjarga okkur ef við fáum að halda óbreyttu útvarpsgjaldi, án þess að það verði skert á næstu árum.

Hvaða skilaboð er verið að gefa með því að hafna slíku? Þá spyr maður eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir gerði áðan: Eru einhver falin áform á bak við þær ákvarðanir sem hér er verið að taka? Geta menn ekki talað skýrt og sagt bara að þessi stofnun eigi að leggjast af í staðinn fyrir að pakka henni smátt og smátt saman, væntanlega þá til þess að hún geti farið hér fram úr og menn geti svo notað afsökunina að hún verði einkavædd?

Þetta er eina stofnunin sem er ekki einkarekin í fjölmiðlaheiminum og það skiptir gríðarlegu máli að hún sé öflug og njóti trúverðugleika hjá íslenskri þjóð. Ég segi já.