144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Fjölmiðlar geta verið með ýmsum hætti. Hér er til dæmis sjónvarpsupptökuvél á veggnum og ég er í sjónvarpinu núna. Við erum öll dagskrárgerðarmenn á Alþingisrásinni eins og einhver sagði. Þannig viljum við ekki hafa Ríkisútvarpið, það á ekki bara að vera sjónvarpsmyndavél á vegg. Við viljum að Ríkisútvarpið fullnægi skyldum sem við höfum lagt á herðar þess með þjónustusamningi.

Við sjáum dæmi um ótrúlega flotta ríkisfjölmiðla á Norðurlöndum eins og til dæmis danska ríkisfjölmiðilinn og í Bretlandi sem eru framleiðendur á innlendu efni, algjörir grunnþátttakendur í menningarlífi þessara þjóða og jafnvel á heimsmælikvarða, eru að búa til efni á heimsmælikvarða. Ég mundi vilja sjá Ríkisútvarpið fara þangað.

Við erum búin að búa til kerfi svo að það geti farið þangað á sjálfstæðan hátt. Það á að fá nefskatt og þessi tillaga er ótrúlega einföld. Við erum bara að leggja til að þetta gjald, þessi nefskattur, verði óbreytt og renni óskert til útvarpsins svo að það geti sinnt öllum þessum skyldum. Þetta er ekki svo flókið og það er einbeittur brotavilji þá að vera á móti þessu.