144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, hefur kallað eftir pólitískri aðför að Ríkisútvarpinu. Það er dapurlegt að ný kynslóð í Sjálfstæðisflokknum hafi hvorki sjálfstæði né pólitískt þrek til að hafna slíkri fortíðarpólitík hefndar og þöggunar. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.)

Ríkisútvarpið er fjöregg íslenskrar tungu, menningar og lýðræðislegrar umræðu í landinu. Hér skortir ekki féð, við þurfum bara að halda gjaldinu óbreyttu. Ég veit að stjórnarþingmönnum þykir, eins og okkur þykir alltaf þegar við erum í meiri hluta, stundum óþægilegt að verða fyrir óvæginni gagnrýni en ég bið menn að hefja sig yfir það milli umræðna og muna að það eru hagsmunir lýðveldisins að í landinu sé sterkur, sjálfstæður og gagnrýninn fjölmiðill fyrir lýðræðið í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)