144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér í umræðum um fjárlagafrumvarpið að lesa upp bréf, ekki núna vegna þess að það er of langt, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, þegar við höfum tækifæri til. Þá leiðréttist ýmislegt af þeim rangfærslum sem stjórnarandstæðingar halda hér fram. Hér er um það að ræða að við erum að hækka framlögin um 485 millj. kr. á ári. Eðli málsins samkvæmt er það hlutverk okkar að sjá til þess að endar nái saman eins og sumir hv. þingmenn hafa bent á og þess vegna eru hér skilyrði vegna þess að það hefur ekki gerst. Það hefur til dæmis þýtt að árið 2009 voru framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins 995 millj. kr. hærri, ef marka má bréf þingmanna Vinstri grænna og ríkisreikning, en tekjur af útvarpsgjaldi. Það að koma hér upp og reyna að gera þetta ótrúverðugt og kalla það þegar menn vilja fylgjast með rekstri, sem er ekki hægt að fylgjast með (Forseti hringir.) vegna þess að hv. fjárlaganefnd fær ekki upplýsingar, (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) einhvers konar handjárn er ótrúlegur málflutningur. [Frammíköll í þingsal.]