144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í umræðunni um málefni RÚV í þessari fjárlagavinnu hefur sama klisjan verið tuggin svo oft af þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þessir sömu þingmenn eru farnir að trúa sjálfum sér. Það eru helber ósannindi sem hafa verið borin hér á borð úr þessum ræðustóli dag eftir dag. Það stendur í greinargerðinni, ef þingmenn hefðu einhvern tímann tíma til að lesa sér til, að sú tillaga sem er borin hér upp af ríkisstjórninni samsvari fjárheimild til ráðstöfunar sem nemur áætluðum innheimtutekjum ríkissjóðs af útvarpsgjaldinu á árinu 2015, eða 3.680 millj. kr. Svo er sagt að það sé verið að skera RÚV niður. Ég hafna svona þvættingi, það er ábyrgðarhluti að vera þingmaður og fara í þessum stól með staðlausa stafi dag eftir dag.