144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að auka framlög til Ríkisútvarpsins þannig að það er tómt mál að tala um að verið sé að draga úr þeim á sama tíma. Það er auðvitað verið að snúa hlutunum á hvolf. Það breytir hins vegar ekki því að um verulegan rekstrarvanda er að ræða í þessari stofnun. Síðasta vor var gerð úttekt af hálfu stofnunarinnar á rekstrarstöðunni og þar kom í ljós að þá var Ríkisútvarpið ohf. yfirskuldsett, sem síðan hefur birst í því að fyrirtækið hefur ekki getað staðið skil á sínum skuldbindingum. Sá vandi varð ekki til á þessu ári, það er uppsafnaður vandi sem er verið að fást við. Og þegar sagt er að eitthvað óeðlilegt sé við það að síðan fari fram mat á rekstrarhæfinu vil ég minna á að það var sérstaklega kveðið á um það í fjárlagafrumvarpinu að fjármál þessarar stofnunar væru til skoðunar. Það er í fullu samræmi við það sem kom fram í frumvarpinu sjálfu að þessi hátturinn sé hafður á.

Ég er síðan mjög þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið sé mikilvægt og hafi mikilvægu hlutverki að gegna í okkar samfélagi. Um leið er líka ljóst að ýmsar breytingar (Forseti hringir.) sem hafa orðið á fjölmiðlamarkaði munu kalla á enn frekari breytingar á rekstri þessarar stofnunar, (Forseti hringir.) en mér finnst ekki við hæfi að hér sé vikið að köpuryrðum að litlum einkareknum sjónvarpsstöðvum eða útvarpsstöðvum eins og hér var gert áðan. [Kliður í þingsal.]