144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér eru á ferð mjög hógværar tillögur minni hlutans og ég vek athygli hv. þingmanna á því að við leggjum til að mynda til aukningu í myndlistarsjóð sem var svo rækilega skorinn niður skömmu eftir að hann var stofnaður að hann nær ekki einu sinni upprunalegri fjárhæð þótt við samþykkjum tillögur minni hlutans. Þetta er sjóður sem við, hv. þingmenn á Alþingi, stofnuðum saman með lögum 2012 og mjög mikilvægt að hann fái byr undir báða vængi. Tónlistarsjóður, það þarf ekki að ræða einu sinni í þessum sal um mikilvægi tónlistar og hagræn áhrif tónlistar og skapandi greina almennt. Við vorum að samþykkja hér framlög til Kvikmyndasjóðs og höfum verið að ræða hér hagræn áhrif kvikmyndagerðar. Hið sama get ég sagt um allar þessar skapandi greinar. Bókasafnssjóður höfunda er ein leið til þess að koma til móts við rithöfunda sem horfa framan í verri tíð ef skattbreytingartillögur meiri hlutans verða að veruleika þegar við ræðum um virðisaukaskatt. Þetta eru hógværar tillögur sem miða að því að efla hinar skapandi greinar sem skapa (Forseti hringir.) ómæld verðmæti en eru líka gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið. Þess vegna segi ég já.