144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er eins og heiðurslaun listamanna séu einhvers konar olnbogabarn því að það fækkar alltaf á þeim lista eftir því sem listamenn af þeim lista deyja og ekki er bætt á hann. Ég tel mjög mikilvægt og er sammála formanni allsherjar- og menntamálanefndar um að það þurfi að endurskoða það. Það hefur ítrekað verið rætt á síðasta kjörtímabili og örugglega kjörtímabilinu þar á undan og eins þar á undan. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga að það er óeðlilegt að skipað sé pólitískt á heiðurslaunalista listamanna. Við þyrftum að koma á fyrirkomulagi þar sem listamenn geta notið heiðurs en jafnframt öruggs lífeyris. Við þurfum að fara eins og köttur í kringum heitan graut í þessu efni og horfast í augu við að ekki er heppilegt að hafa þessi mál í pólitísku ferli.