144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér leggjum við til í minni hlutanum hóflegt viðbótarframlag til æskulýðsmála, einungis 15 milljónir. Ástæðan er sú að öll framlög til æskulýðsmála eru bundin ákveðnum samtökum. Hugsunin er að búa til svigrúm fyrir sjálfsprottin verkefni ungs fólks þar sem fólk getur sótt í stuðning til að skapa góð verkefni. Við höfum dæmi um þetta á síðustu árum þar sem ungt fólk hefur búið til verkefni og stutt annað ungt fólk til mennta, til virkni, til atvinnuþátttöku, og vandinn er sá að það er enginn svona styrkmöguleiki til í kerfinu í dag. Ef svona styrkmöguleiki er til er hægt að fá viðbótarstyrki úr samevrópskum sjóðum þannig að þetta getur orðið vísir að miklu meira ef þetta verkefni fær að fara hér í gegn. Þetta eru agnarlitlir peningar.