144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili vann hv. fjárlaganefnd heilmikið starf í því að koma skikki á og gera samkomulag um það hvernig við færum með óskipta liði fjárlagafrumvarpsins. Því miður virðist núverandi meiri hluti í hv. fjárlaganefnd vera að snúa til baka frá þeirri sátt sem þar náðist. Umbótastarfið sem unnið var á síðasta kjörtímabili var unnið með það í huga að auka gegnsæi og traust almennings á því hvernig fjármunum ríkisins yrði úthlutað. Það sem verra er er þegar verið er að taka eitt og eitt verkefni á þennan hátt án auglýsingar og án þess að öllum sé þá gert ljóst að þarna sé möguleiki að ná í fjárframlag, það er ekki gott. Það er enn verra en ástandið var áður en við fórum í umbótastarfið í fjárlaganefnd.