144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:27]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér var fullyrt að það hefði myndast mikil og góð sátt um að taka safnliðina út úr fjárlagavinnunni á síðasta kjörtímabili. Um það ríkti ekki sátt. Sá sem hér stendur sat í fjárlaganefnd og gagnrýndi það harkalega að fjárveitingavaldinu hefði verið úthýst úr Alþingi. Ég vil taka það fram að tveir hv. þingmenn sem þá sátu í fjárlaganefnd, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Ásbjörn Óttarsson, komu hér í ræðustól Alþingis og sögðu frá því að gerð hefðu verið mistök með því að útvista safnliði Alþingis til sveitarfélaga og inn í ráðuneyti því þar með missti Alþingi yfirsýn yfir mjög mörg og góð verkefni víðs vegar um landið.

Ég vildi bara koma þessu til skila, virðulegi forseti, og þegar menn rifja söguna hérna upp eiga þeir að fara rétt með. [Kliður í þingsal.]