144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega verðugt verkefni að dreifa opinberum störfum betur um landið og færa þau völd sem eru í stjórnsýslunni aðeins meira af höfuðborgarsvæðinu. Talandi um vinnubrögð þá eru þessi vinnubrögð fyrir neðan allar hellur. Stjórnvöld vissu greinilega ekki þegar þau voru að semja fjárlagafrumvarpið að það ætti að fara í þessar aðgerðir. Það hefði verið hægt að fara í þessa aðgerð þegjandi og hljóðalaust ef menn hefðu ákveðið að á sex, sjö árum skyldi flytja höfuðstöðvar Fiskistofu norður. Mér finnst leiðinlegt að hæstv. ráðherra skuli hafa tekið af okkur tækifærið til að fara í þá umræðu hvort fólk sé almennt á móti flutningi opinberra starfa út á landi, hvort það sé á móti flutningi Fiskistofu til Akureyrar eða hvort það séu vinnubrögðin sem það er á móti.

Ég er mjög ósátt við þessi vinnubrögð þó að ég vilji mjög gjarnan fá höfuðstöðvar Fiskistofu út á land. Á sama tíma er Matís að loka á Akureyri, Hafrannsóknastofnun er að minnka og fullt af störfum leka hægt og rólega aftur til Reykjavíkur og við því er ekkert gert.