144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Sem stuðningsmaður þess að fjölga opinberum störfum og dreifa þjónustunni um allt land hryggir það mig hvernig hægt er að eyðileggja þá umræðu og þær hugmyndir með þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð. Í fyrsta lagi eru menn búnir að fara í undirbúning án þess að hafa nokkra lagaheimild. Þær verklagsreglur sem fjármálaráðuneytið hefur sett um það hvernig menn eiga að standa að slíkum undirbúningi, bæði hvað varðar undirbúning og skipulag ef menn ætla að færa stofnanir, eru sniðgengnar. Þetta verður til þess að góður ásetningur um það að styrkja landsbyggðina eða fjölga störfum á landsbyggðinni eyðileggst vegna framgöngu einstakra ráðherra. Það hryggir mig vegna þess að við þurfum á því að halda að standa sameiginlega vörð um það að þjónustan sé dreifð og að menn eigi kost á því að sækja hana óháð búsetu í höfuðborg eða á landsbyggð.