144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hugmyndin með sóknaráætlun landshluta var meðal annars sú að sveitarfélögin kæmu með beinum hætti að undirbúningi fjárlaga. Þannig yrði þekkingin sem býr í sveitarfélögunum og landshlutunum nýtt og þarfagreining og forgangsröðun þeirra tekin gild. En til þess þurfti auðvitað að setja aukið fjármagn, það þurfti nýja peninga í þetta verkefni til þess að það skilaði árangri.

400 milljónir eru ágætisframlag til þess að vinna með en auðvitað ættum við að stefna að því að auka þetta svigrúm og nýta þá þekkingu sem er til í sveitarfélögunum og samstarfið og forgangsröðunina í landshlutasamtökunum. Ég harma að þessi hæstv. ríkisstjórn skuli ekki skilja mikilvægi þessa verkefnis og út á hvað það gengur.