144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að leggja um 100 milljónir í sóknaráætlanir landshluta. Það var barist fyrir því í síðustu fjárlögum að fá þessa upphæð hækkaða úr 15 milljónum eins og komið hefur fram. Það náðist með samstöðu stjórnarandstöðunnar. Nú er upphæðin 100 milljónir en það er verið að tala um að blanda þessu öllu saman, vaxtarsamningum, menningarsamningum og sóknaráætlunum. Þetta verður eitthvert bix sem menn átta sig ekkert á hvað verður úr. Þegar fjármunir eru ekki til staðar og dregið er úr fjármunum í þessa þætti og þessu öllu blandað saman þá er það ekki gott fyrir landsbyggðina. Ég sé að hv. þingmenn Framsóknarflokksins horfa í gaupnir sér og er ég ekkert hissa á því. Þetta er alvarlegt. Undir þennan lið er meira að segja tekið fjármagn í dreifnám í framhaldsdeildum fjögurra skóla og þeir fjármunir þannig skertir. Auðvitað eiga litlir skólar sem eru með dreifnám og fjarnám að vera fjármagnaðir beint frá ríkinu en ekki í gegnum sóknaráætlanir.