144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef orðið vör við kvíða, bæði hjá sveitarstjórnarmönnum og hjá fólki sem vinnur að ferðamálum fyrir næsta ári vegna þess að mjög margir ferðamannastaðir liggja undir skemmdum og það þarf að bæta innviði friðlýstra svæða. Það þarf líka að auka aðdráttarafl fleiri ferðamannastaða til að dreifa ferðamönnum um landið.

Virðulegri forseti. 145 milljónir ætlar hæstv. ríkisstjórn að setja í uppbyggingu ferðamannastaða. Þetta er hneyksli, leyfi ég mér að segja. Hvar er stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessari ört vaxandi atvinnugrein? Ætlar hæstv. ríkisstjórn gjörsamlega að klúðra þessu öllu saman og eyðileggja verðmætin sem við bjóðum í raun upp á hér? Þessu verður að breyta milli umræðna, ég trúi bara ekki öðru. Að fólk ætli að vaða svona inn í ferðamannasumarið, það gengur ekki.