144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögu til Vegagerðarinnar og vegagerðar á landinu. Ef þetta verður samþykkt, eins og mér sýnist að stjórnarmeirihlutinn ætli að gera, verður á árinu 2015 nánast allt féð þegar bundið í verkefnum sem ákveðin voru af síðustu ríkisstjórn. Ég nefni Norðfjarðargöng, Vestfjarðaveg, Álftanesveg, breikkun Hellisheiðar o.fl. Allt fé til nýrra verkefna, fyrir utan slitlag á tengivegi og smávegis í héraðsvegi, er aðeins 570 millj. kr. til framkvæmda og af þeim hafa verið teknar 300 millj. kr. í fjáraukatillögum þannig að einungis verða 270 millj. kr. áætlaðar til nýrra verkefna í vegagerð árið 2015. Mér sýnist þetta vera Íslandsmet í að gera ekki neitt í nýjum vegaframkvæmdum árið 2015. (Gripið fram í.) Ég hvet stjórnarmeirihlutann til að skoða þessa vitleysistillögu sína og þessa árás á vegagerð og innviðastyrkingu, sem meðal annars hæstv. fjármálaráðherra var að hreykja sér af áðan varðandi annan lið. Ég hvet stjórnarmeirihlutann til að endurskoða þessa tillögu vegna þess að ef þetta gengur eftir verður ekkert af þeim stóru verkefnum sem áttu að fá 2 milljarða á næsta ári farið í framkvæmd og einungis 10% af þeirri upphæð verður til ráðstöfunar á næsta ári. Ég segi nei við þessari tillögu.